Tumgik
perlahaf · 8 years
Text
Þá og nú
Fyrir ekki svo löngu síðan sat Perla heima hjá sér á Bergþórugötunni og starði á tölustafina á tölvuskjánum. Tölurnar voru upphæð, sem hún hafði samviskusamlega lagt fyrir og áttu að vera fyrir framtíðina. Þegar hún var 18 ára opnaðist reikningurinn, en í stað þess að taka peninginn út og eyða honum eins og flestir jafnaldrar hennar sem áttu slíkan sjóð, ákvað hún að læsa reikningnum í 3 ár í viðbót, hún ætlaði að kaupa sér eitthvað sniðugt, eins og íbúð í 101, svo hún þyrfti ekki að lenda í helvítis leigumarkaðinum. Einn daginn vaknaði Perla og var 21 árs, hún vann á leikskóla og henni fannst það mjög skemmtilegt starf, en það blundaði í henni þrá, hana langaði að kynnast hönnun betur, hana langði að prufa að fara í Lýðháskóla. Hún passaði að fara skynsamlega með launin sín, lagði alltaf pening inn á bankabók en passaði sig líka að launa sjálfri sér, með rándýrum kaffibollum á Te og Kaffi, Einstökum bjórum og allskonar mat. Það kom einstaka sinnum fyrir að hún keypti sér flík, en hún fékk alltaf magapínu þegar hún stakk plastkortinu í posavélina og horfði á tölurnar prenntast út á hvítum miða, hún vildi ekki kvittun, hún vildi gleyma, hún vildi ekki hugsa meira um þessar tölur, en samt voru þær stöðugt í huga hennar. Hún áttaði sig á því einn daginn, þegar hún starði en og aftur á tölur á nýjum tölvuskjá, sem hún hafði eingnast nokkrum dögum fyrr að kannski tækist henni ekki að safna öllum þessum peningum sem Lýðháskólinn kostaði. Hún ákvað að hætta við, hún gæti alveg farið bara á næsta ári. Einn daginn áttaði Perla sig á því að hún væri 21 árs, það voru 3 ár síðan hún hafði ákveðið að læsa peningana sína inn á bók, peningarnir voru fyrir framtíðina. Hún áttaði sig á því að Lýðháskólanámið væri í framtíðinni og það væri alls ekkert vitlaust að nota þessa peninga í menntun, kannski langaði hana ekkert í íbúð í hundrað og einum í framtíðinni.
Núna situr Perla heima hjá sér í íbúð sem er ekki í hundrað og einum Reykjavík, heldur tvöþúsund og eitthundrað, Kaupmannahöfn. Hún á ekkert í þessari íbúð, er ekki einu sinni búin að borga leiguna fyrir þennan mánuð. Hún er atvinnulaus og blönk. Í fyrstu fannst henni hún vera týnd, hún vissi ekki hvað hún var að gera, en eftir nokkra daga lærði hún að rata, hún lærði að sleppa áhyggjunum og lifa bara, að njóta augnabliksins. Nú loksins skilur hún hvað það þýðir að lifa í núinu, núna veit hún hvernig það er að vera frjáls. Hún er hamingjusöm og henni líður vel.
Kannski líður henni allt örðuvísi á morgun, en það skiptir ekki máli, afþví að á morgun er nefninlega ekki til.
0 notes
perlahaf · 9 years
Text
Skoðun mín á skoðunum í dag 14. nóvember 2015 klukkan 18:32 á staðartíma
Það gerist reglulega að ég uppgötva gífurlegt magn af nýjum hlutum í einu, eða öðlast dýpri skilning á einhverju sem ég hef lært áður. Þá finnst mér eins og ég uppfærist. Það tekur svolítinn tíma fyrir allar nýju uppfærslurnar að hlaðast inn í hausinn á mér en í hvert skipti kemur út ný og betri Perla.
Eftir að þessar uppfærslur eiga sér stað finnst mér eins og ég sé að springa og að ég verði að deila því sem ég hef lært með einhverjum. Ég opna munninn við hvert tækifæri, vegna þess að með því að tjá mig um þessar nýju uppgötvanir þarf ég að vanda mál mitt. Með því að segja hlutina upphátt þarf ég að skipuleggja hugsanir mínar, koma einhverri reglu á þær svo ég geti komið þeim frá mér þannig að aðrir skilji þær. Þannig öðlast ég líka betri skilning á þeim sjálf. Fólk er ekki alltaf sammála mér og kemur oft með rök sem fá mig til að sjá annað sjónarhorn eða  til þess að hugsa dæmið algjörlega upp á nýtt, en stundum verð ég vissari um að ég hafi á réttu að standa.
Þegar maður er alveg viss um að maður hafi rétt fyrir sér og einhver segir manni að svo sé ekki verður maður reiður „hvernig dirfist þú að efast um það sem ég veit að er satt?.“ Þegar maður er reiður og æstur getur maður gleymt að skipuleggja það sem maður ætlar að segja, það getur oft endað í einum hrærigraut af upphrópunum. Ég reyni þess vegna að halda ró eftir bestu getu þegar ég rökræði við fólk.
Það getur verið erfitt að deila því sem maður er að hugsa, sérstaklega ef málefnið er flókið og engin ein sönn hlið á málinu, margir kjósa þess vegna bara að sleppa því að tjá sig. Ég tel hins vegar að það sé mjög gott að viðra skoðanir sínar reglulega, svo þær fari ekki að ryðga eða mygla inní heilabúinu.
Stundum segir maður eitthvað mjög gáfulegt og fær mörg læk eða glymrandi lófatak, og stundum segir maður eitthvað kjánalegt og þarf þá að klóra sig aftur upp „læk stigan“. Það sem mér finnst þó mikilvægast þegar maður reynir að sannfæra einhvern er að vanda sig við að deila skoðunum sínum, þar á ég bæði við að orða hlutina eftir bestu getu, eða skrifa á sem skilmerkilegastan hátt. Með því að vanda sig á ég einnig við að móðga ekki annað fólk og ráðast ekki á það persónulega með því að kalla það illum nöfnum.
Stundum þegar ég er að reyna að sannfæra einhvern sem skilur ekki það sem ég er að segja og virðist jafnvel ekki vera að reyna, verð ég pirruð. Inní heilabúinu á mér er rödd sem bölvar einstaklingnum í sand og ösku, ég sé myndir af sjálfri mér þar sem ég reyni að hrista einstaklinginn í örvæntingu minni til að fá hann til að skilja. Þá þarf ég að draga djúpt inn andan, ég veit nefninlega að það kemur ekki til með að hjálpa mér að sannfæra neinn ef ég hristi hann eða segi þú er bara helvítis vitleysingur og kjáni. Ég veit líka að ég get haft rangt fyrir mér og ég skammast mín ekki fyrir að skipta um skoðun, enda er ég ekki langrækin í eðli mínu. Ég veit að allt sem ég segi og geri skiptir máli og að ég hef sagt margt og gert margt sem ég myndi gera og segja öðruvísi í dag. Ég skammast mín ekki fyrir það vegna þess að ég veit að ég er alltaf að uppfærast, gamla útgáfan virkaði ágætlega í fortíðinni, en skiptir ekki máli núna afþví að það er komin ný og aðeins betri.
Fyrir ári síðan var ég til dæmis viss um að ég myndi aldrei fá mér snjallsíma og prédikaði yfir fólki að það væri skaðlegt fyrir líkama og sál að eiga svona tæki. „Ég þarf ekkert að fá tilkynningar um nýjasta lækið á facebook um leið og það gerist.“ Núna er ég búin að eiga snjallsíma í ár og hef lært að sættast við að þó svo að snjallsímar hafi marga ókosti geta þeir líka létt manni lífið. Ég er samt ennþá sammála gömlu útgáfunni af mér að lífið væri einfaldara ef enginn ætti snjallsíma, þó ég geti ekki breytt því get ég lært að sættast við það og reynt að vera ábyrgur snjallsímaisti (þó ég eigi það auðvitað til að gleyma mér).
Fyrir ári síðan var ég líka viss um að ég yrði aldrei grænmetisæta og prédikaði yfir fólki og rökræddi fram og aftur. Ég fór í marga hringi þangað til að ég hafði aflað mér nægilegra upplýsinga til að taka meðvitaða ákvörðun um að prufa að hætta að borða kjöt. Nú er ég búin að vera grænmetisæta síðan í ágúst og hef sannað fyrir sjálfri mér að það sé vel hægt að lifa góðu lífi án kjöts. Mér finnst samt ennþá allt í lagi að fólk borði stundum kjöt og er ekki búin að ákveða að borða það aldrei aftur.
Við erum öll sífelt að þróast og þroskast, skoðanir okkar breytast með okkur, það er ekkert til þess að skammast sín fyrir. Við skulum ekki halda aftur af skoðunum okkar vegna hræðslu að hafa rangt fyrir okkur eða ótta um að gera stafsetningarvillur. Allar skoðanir eiga rétt á sér og við verðum að læra að taka gagnrýni, þetta hef ég lært og þú mátt vera ósammála mér.
-OS X Perla Version 10.10.5
0 notes
perlahaf · 9 years
Photo
Tumblr media Tumblr media Tumblr media Tumblr media
Frá skyssu yfir í prótótýpu // pocket shave #DSDH
0 notes
perlahaf · 9 years
Photo
Tumblr media Tumblr media
Servíettan og teikning af of-mörgu kaffibollunum sem ég neytti í dag. Einnig ágætis skýringarmynd á því hvernig ég hefði þurft að læra stræðfræði. 
0 notes
perlahaf · 9 years
Text
ADHD
.Má bjóða þér kvíðaröskun eða athyglisbrest?
-Athyglisbrest takk. Með eða án ofvirkni? -Bara örlítið, svona já, takk. Takk sömuleiðis og eigðu góðan dag!
ADHD Attention Deficit Hyperactivity Disorder AMO athyglisbrestur með ofvirkni
Ég sat á fyrirlestri í dag í glænýja bókasafninu DOKK 1 í Århus. Þar fengum við gefins kaffi og mér tókst að vekja aðeins of mikla athygli á því að mig vanntaði mjólk, venjulega mjólk ekki karamellubragði. Þegar ég hafði fengið heilan kassa af mjólk og slurpað nokkrum dropum í Keep Cup-inn minn tók ég sopa og fannst kaffið svo vont að ég gat ekki drukkið meira af því, sem var kannski gott þar sem ég hafði drukkið tvo bolla fyrr um daginn. ( Annars er svolítið fyndið að í boði voru pappamál á þessu nýja bókasafni sem segist hafa „sustainability“ að leiðarljósi, það er líka voða lítið verið að spá í þessu í skólanum. )
Aftur að fyrirlestrinum, hann fjallaði um þjónustu hönnun eða service design, þetta hljómaði áhugavert en ég gat ómögulega einbeitt mér að því sem maðurinn var að segja, það hjálpaði ekki til að fyrirlesturinn var á dönsku. Mér fannst mjög erfitt að sitja kyrr, þurrfti sífellt að vera að fikta í einhverju á borðinu. Ég reyndi árangurslaust að fá blað og penna frá skólafélögum mínum, því ég hafði gleymt að taka með mér skissubók. Á meðan ég reyndi að láta það ekki í ljós að ég væri með athyglina allt annarstaðar fór hugurinn á flug. Ég fór að hugsa um öll þau skipti sem ég hafði verið í svipuðum aðstæðum, um allar þær lausnir sem ég hafði fundið til þess að láta eins og ég væri að hlusta. Ég varð að fá eitthvað til að skrifa með, servíettan fyrir framan mig yrði að duga. Afhverju þykir það dónalegt að gera eitthvað með höndunum á meðan þú hlustar, í mínu tilfelli hjálpar það mér að halda fókus, ef ég mætti bara prjóna eða lita í litabók, hvað sem er! -Þetta er í síðasta skipti, sagði ég við sjálfa mig og spurði sessunaut minn um blýant. Ég reyndi að teygja mig yfirvegað í servíettu, en byrjaði svo að pára óþreygjufull með blýantinum á servíettuna.
SERVÍTTAN + UPPLÝSINGAR AF VÍSINDAVEFNUM
Í dag eru meira og minna allir greindir með einhverjar raskanir, þráhyggju og árátturöskun, flemtruröskun, áfallasreituröskun, aðskilnaðarkvíðaröskun, félagsfælni, fóbíu, geðhvörf, athyglisbrest, geðklofa, þunglyndi, svefntruflanir og jafnvel blöndu af þessu öllu saman. Þegar ég var yngri átti ég í miklum erfiðleikum með að einbeita mér í skólanum, ég var ekki beint ofvirk heldur lýsti þetta sér frekar svona „Börn sem eru með AMO þar sem athyglisbrestur er ráðandi virðast oft vera annars hugar, ringluð eða í móðu. Þau fá oft störu, eru hægfara og vanvirk.“ Ég var samt alls ekki alltaf vanvirk og hægfara, það var aðeins á þeim sviðum sem mér þóttu óáhugaverð eða ef ég var þreytt. Þegar mér fannst eitthvað áhugavert gat ég sökkt mér svo djúpt í það sem ég var að gera að ég tók ekki eftir neinu öðru í kring um mig. Í dag lýsir þetta sér svipað „Hjá fullorðnum koma vandamál oft fram sem skipulagsleysi, tímaleysi, áhættuhegðun, kæruleysi, einbeitingarleysi og hvatvís hegðun. Oft eiga þeir erfitt með að skipuleggja líf sitt fram í tímann, klára verkefni á tilsettum tíma og komast yfir hindranir sem kunna að verða á vegi þeirra, þetta hamlar viðkomandi heima fyrir, í skóla, meðal félaga, í vinnunni og samfélaginu almennt.“ Ég hef hins vegar lært á sjálfa mig og með auknu vali sem fylgir því að eldast hef ég fundið verkefni sem hennta mér vel, þetta truflar mig því ekki mikið í daglegu lífi og ég lít frekar á athyglisbrestinn minn sem kost heldur en galla. Enda mætti bæta við nafnið ofur-athygli eða eitthvað álíka og frekar vil ég vera ofvirk heldur en óvirk. Margir líta á þetta sem einhverskonar sjúkdóms- eða fórnarlambsvæðingu en ég held að það sé gott að hafa hugtök og þekkingu á þessum röskunum öllum saman svo við getum lært að lifa með þeim og notað þær til góðs svo hlýtur að vera hægt að breyta einhverju í samfélaginu líka, svo við finnum öll okkar rétta stað eða hvað?
0 notes
perlahaf · 9 years
Photo
Tumblr media Tumblr media Tumblr media Tumblr media Tumblr media Tumblr media Tumblr media Tumblr media Tumblr media Tumblr media
Studietur til Århus
0 notes
perlahaf · 9 years
Photo
Tumblr media Tumblr media Tumblr media Tumblr media
Hér er síðan verkefnið okkar, hamborgari með sýrðum agúrkum, ruglað góðu mæjónesi og svínakjöti ( grænmetisæturnar sem sífellt fjölgar hér í skólanum fengu sæta kartöflu í staðin ) Til þess að toppa þessa dásemd var truffluolíu síðan sprautað í borgaran og honum síðan skolað niður með heimagerðu ístei.
0 notes
perlahaf · 9 years
Photo
Tumblr media Tumblr media Tumblr media Tumblr media Tumblr media Tumblr media
Loka útkoman
0 notes
perlahaf · 9 years
Photo
Tumblr media Tumblr media Tumblr media
Dúkaristur, Lógó, Undirbúningur fyrir stóra daginn
0 notes
perlahaf · 9 years
Photo
Tumblr media Tumblr media Tumblr media Tumblr media
Ásamt því að elda tvisvar sinnum hádegismat fyrir samnemendur okkar og kennara undirbjuggum við sérstaka matarupplifun þar sem þemað var EITURLYF þar sem nánast allt átti að vera ætt. Okkur var skipt í 4 hópa  Junkies ( Minn hópur )  Mafíósar Stónerar Ríka fólkið
0 notes
perlahaf · 9 years
Text
Ágætis byrjun
Hvernig get ég haldið utan um verkefnin sem ég geri í skólanum og blaðrað við sjálfa mig um daginn og veginn?  Nú auðvitað hér á Tumblr, hvernig sem maður ber það fram. Ég hef aldrei skilið þetta nafn og ekki heldur flickr, hvernig í ósköpunum á maður að bera fram blr og ckr, hafið þið spáð í þessu? En allavegana, í dag er 13. október og við vorum að ljúka við tveggja daga klippimyndasessjon í Grafík. Ég kannski segi ykkur meira frá síðustu viku, enda er ég ekkert sérlega góð í að lifa í núinu. 
Svo er líka spurning, þegar maður skrifar svona blogg hvort maður hafi þetta stílhreint og riti allt í Helvetica eða hvort maður leiki sér með letrið (svona verður maður geðveikur í þessum skóla). Ég hugsa að ég fylgi bara flæðinu, hlusti á hjartað og geri bara nákvæmlega það sem mig langar hverju sinni.  Hvar var ég?
Síðasta vika! Sú vika var lengri en aðar vikur, alveg frá föstudeginum 2. október til sunnudagsins 11. október. Fyrstu helgina í síðustu viku var GAMMEL ELEVFEST eða RULLEFEST hér í skólanum. Þá fylltist allt af gömlum nemendum sem rúlluðu um gólfin á línuskautum.  Á mánudeginum 5. október höfðu allir gömlu nemendurnir rúllað einhvert annað valfagsvika gekk í garð og maður að nafni William kom hingað til þess að kenna okkur hönnunarnemunum að… elda! Við skulum svo bara leyfa myndunum að tala.
Ég gleymdi samt að klára færsluna, athyglin mín brestur stundum. Ég átti alveg eftir að segja frá seinni helginni í síðustu viku, þá tók ég nefninlega skyndi ákvörðun og skellti mér í roadtrip til Kaupmannahafnar, ásamt kokknum William og þremur norðmönnum sem sáu auðvitað um að nægur bjór væri til taks fyrir ferðalagið, þegar þangað var komið fór ég í innflutningspartý, vá hvað þetta er óáhugavert. Ég held ég leyfi bara myndunum að segja restina, góðar stundir.
0 notes